Hoppa yfir valmynd
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

5/2021 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2022, 4. apríl, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður málinu 

 

nr. 5/2021

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru til áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, dags. 2. september 2021. Kærandi krefst þess að ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands („“ eða „skólinn“) nr. 2021/2 verði felld úr gildi. Einnig er óskað álits á því hvort framkvæmd breytinga á námsleið og meðferð Viðskiptafræðideildar á beiðni kæranda samrýmist reglum, skráðum eða óskráðum, og góðri stjórnsýslu. Viðbrögð HÍ við kærunni bárust með tölvuskeyti 5. október 2021. Þar sagði að þau sjónarmið sem HÍ byggði niðurstöðu sína á kæmu fram í áliti kærunefndar í málefnum nemenda sem fylgdi skeytinu ásamt öðrum gögnum málsins. HÍ teldi ekki ástæðu til að bæta neinu þar við. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda, dags. 12. janúar 2022, sem skólinn svaraði með bréfi, dags. 25. janúar 2022.

II.

Málsatvik

Kærandi hóf 90 eininga meistaranám í fjármálum fyrirtækja (FMF432) haustið 2014 (hér eftir einnig vísað til sem MS-90 námsleið). Kærandi lauk tilskildum námskeiðum vorið 2015 og átti þá aðeins eftir að skila 30 eininga MS ritgerð til þess að ljúka prófgráðu. Á deildarfundi Viðskiptafræðideildar 16. júní 2017 var m.a. samþykkt að taka upp lotukennslu í meistaranámi haustið 2018 og að námið yrði lengt í tvö ár, þ.e. yrði 120 einingar í stað 90 eininga. Jafnframt var ákveðið að meistaranemar hefðu þrjú ár til að ljúka 90 eininga námi. Á fundi Meistaranámsdeildar Viðskiptafræðideildar 3. apríl 2018 var ákveðið að nemendur sem hófu nám árið 2014 eða fyrr fengju þær upplýsingar að þeir hefðu í síðasta lagi fram til október 2019 til þess að ljúka námi samkvæmt eldra skipulagi, en yrðu annars að innrita sig í námið á ný og fylgja hinu nýja skipulagi. Nemendur sem hófu nám 2015-2016 hefðu fram til október 2020 og nemendur sem hófu nám 2017 hefðu fram til október 2021.

Fyrir liggur að síðar var frestur fyrir nemendur sem hófu nám 2014 eða fyrr lengdur til október 2020. Þessi breyting var kynnt á heimasíðu Viðskiptafræðideildar auk þess sem tekið var fram að eftir október 2020 yrðu þeir nemendur sem óskuðu eftir að ljúka námi að innritast í 120 eininga námið og sækja um að fyrra nám yrði metið. Þá liggur fyrir að þeim nemendum sem vel voru komnir á veg með ritgerðir að mati leiðbeinanda var gefinn viðbótarfrestur til febrúar 2021. Einnig kom fram á heimasíðu deildarinnar að nemendur sem hófu nám 2015-2016 hefðu frest fram í febrúar 2021 til að ljúka náminu.

Kærandi hefur upplýst að skil hans á lokaritgerð hafi frestast en að hann hafi ekki óskað eftir námshléi þar sem ekki hafi verið fyrirséð hvenær honum gæfist tækifæri til að ljúka ritgerðarskrifum. Þá hefur kærandi jafnframt upplýst að hann hafi ekki verið í sambandi við leiðbeinanda sinn frá 11. desember 2016 fram til vorsins 2021 og ekki nefnt við hann áform um að hefja vinnu við lokaritgerð sína fyrr en 26. mars 2021. Í þeim samskiptum hafi leiðbeinandinn upplýst kæranda um áðurnefndar breytingar á meistaranáminu og hvatt hann til að fá stöðu sína á hreint áður en hann héldi áfram vinnu við lokaritgerðina. Í samskiptum við verkefnisstjóra hjá Nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs 29. mars 2021 var kærandi upplýstur um framangreinda skilafresti og þau tímamörk sem ákveðin höfðu verið. Í kjölfarið beindi kærandi erindi til meistaranámsnefndar Viðskiptafræðideildar, dags. 30. mars 2021, þar sem hann óskaði eftir heimild til skráningar í deildina til þess að eiga kost á að skila lokaritgerð í meistaranámi í fjármálum fyrirtækja í október 2021 og ljúka námi á meðan frestur sem varðaði MS-90 námsleiðina væri enn í gildi.

Beiðni kæranda var hafnað af meistaranámsnefnd 13. apríl 2021 þar sem m.a. var vísað til þeirra breytinga sem orðið höfðu á meistaranáminu og til jafnræðissjónarmiða. Þá var vísað til þess að í bréfi deildarinnar til kæranda dags. í maí 2014 hafi athygli hans verið vakin á reglum deildarinnar um námsframvindu. Þar hafi m.a. komið fram að meistaranámið væri fullt nám í 12 mánuði, miðað við að öllum námskeiðum væri lokið á tveimur misserum og ritgerð skrifuð að sumri. Þó væri unnt að taka námið á allt að þremur árum, en nemendur þyrftu þá að ljúka 24 einingum á fyrsta skólaári hið minnsta og ljúka öllum námskeiðum á tveimur árum.

Í bréfi nefndarinnar frá 13. apríl 2021 var einnig vísað til 95. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 sem mælir fyrir um að stúdent í námi til MS/MA-prófs skuli hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Þrátt fyrir þetta ákvæði hafi Viðskiptafræðideild ákveðið að gefa skráðum nemendum, sem hafi hafið nám 2014 eða fyrr, lokafrest til október 2019 til að ljúka námi sínu en að sá frestur hafi svo verið framlengdur til október 2020. Því til viðbótar hafi þeir nemendur, sem að mati leiðbeinanda væru komnir vel á veg með ritgerð, fengið viðbótarfrest til febrúar 2021. Á öllum stigum hafi nemendur verið upplýstir um þessi tímamörk og sérstaklega hafi verið tekið fram að ekki yrði um frekari fresti að ræða. Þetta úrræði hafi hins vegar eingöngu átt við skráða nemendur, en kærandi hafi síðast verið skráður nemandi vorið 2015.

Kærandi sendi meistaranámsnefndinni tölvupóst þann 16. apríl 2021 þar sem hann lýsti vonbrigðum sínum með framangreinda niðurstöðu. Þá kom kærandi sjónarmiðum sínum á framfæri og óskaði eftir upplýsingum í tíu tölusettum liðum.

Deildarforseti svaraði tölvupósti kæranda með tölvupósti 19. apríl 2021 þar sem hann staðfesti niðurstöðu meistaranámsnefndarinnar og vísaði m.a. til þess að námi kæranda hefði lokið tæpum sex árum áður, þ.e. skólaárið 2014-2015. Þá vísaði deildarforseti til þess að það nám sem kærandi hefði stundað væri ekki lengur í boði og hefði ekki verið undanfarin ár. Því væri niðurstaða meistaranámsnefndarinnar óhjákvæmileg. Deildarforseti benti ennfremur á að kærandi gæti engu að síður óskað eftir að innritast í það nám sem boðið væri upp á hjá deildinni, þ.e. 120 ECTS nám. Hlyti kærandi inngöngu gæti hann jafnframt óskað eftir því að þau námskeið sem hann hefði tekið á sínum tíma eða einhver hluti þeirra yrðu metin sem hluti af því námi.

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun deildarforseta 19. apríl 2021 til háskólaráðs með kæru 21. s.m. Í samræmi við 3. mgr. 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 óskaði háskólaráð eftir því að kærunefnd nemenda við HÍ gæfi álit sitt á kærunni. Í áliti kærunefndarinnar, dags. 31. maí 2021, var lagt til við háskólaráð að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Með úrskurði 3. júní 2021 hafnaði háskólaráð öllum kröfum kæranda.

 

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi bendir á að hann hafi lokið tilskildum námskeiðum í MS-90 námi í fjármálum fyrirtækja þegar Viðskiptafræðideild tók ákvörðun um breytingar á námsleiðinni árið 2017. Hann hafi ekki verið skráður til náms og ekki í námsleyfi en verið innan þriggja ára tímamarkanna til að ljúka námi og einungis átt eftir að skila lokaritgerð þegar Viðskiptafræðideild hafi tekið ákvörðunina.

Kærandi bendir á að hann hafi verið skráður nemandi á tímabilinu 2014-2015 sem Viðskiptafræðideild hafi skilgreint sérstaklega skilafresti fyrir og framlengt ítrekað. Kærandi byggir á að þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um viðkomandi skilafresti hafi hann misst af tækifærinu til þess að nýta sér þá og ljúka námi. Þá byggir kærandi á því að hann hafi fengið rangar upplýsingar þegar hann bar sig eftir þeim árið 2019.

Kærandi telur að það hefði það verið réttmætt og sanngjarnt að upplýsa hann um breytingarnar og skilafrestina, óháð því hvort hann hafi verið skráður nemandi eða ekki, og gefa honum þar með kost á því að ljúka náminu líkt og þeir sem fengu þær upplýsingar.

Kærandi telur að reglur um tímamörk í námi og reglur um hverjir teljist stúdentar við HÍ, sem einnig hafi verið vísað til í synjun á beiðni hans, fjalli um atriði sem ekki ríki ágreiningur um. Í umræddum reglum komi t.d. ekkert fram um áhrif þess á hagsmuni nemenda, t.d. einingar sem hafi verið lokið, ef farið sé fram úr tímamörkum í námi, auk þess sem heimilt sé að veita nemendum undanþágu frá tímamörkum. Þá sé hvorki fjallað sérstaklega um það í reglum hverjir teljist stúdentar við skólann né að þeir sem ekki séu skráðir stúdentar fyrirgeri þar með réttindum af einhverju tagi. Því telur kærandi ekki ljóst á hvaða reglum hafi verið byggt við þá ákvörðun að upplýsa einungis hluta þeirra nemenda sem breytingar á námsleiðinni höfðu áhrif á, eða skráða nemendur.

Kærandi óskar einnig álits á því hvort framkvæmd breytinga á námsleið og meðferð Viðskiptafræðideildar á beiðni kæranda hafi samrýmst reglum, skráðum eða óskráðum, og góðri stjórnsýslu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 12. janúar 2022, eru fyrri athugasemdir ítrekaðar. Þá er þeirri staðhæfingu HÍ mótmælt að kærandi hafi ekki getað skilað lokaritgerð á skólaárinu 2020-2021 þar sem hann hafi ekki verið skráður stúdent við skólann í skilningi reglna nr. 569/2009. Mörg fordæmi séu til staðar um að nemendum, sem ekki hafi verið skráðir í skólann, hafi verið heimiluð skráning til að skila ritgerð. Í þeim tilvikum óski viðkomandi svið eftir slíkri skráningu við nemendaskrá og nemandi greiði hefðbundið skrásetningargjald að viðbættu gjaldi sem samsvari skráningargjaldi nemanda í námshléi. Fregnir af þessu fyrirkomulagi kveðst kærandi hafa fengið frá kennslustjóra tiltekins sviðs HÍ og hljóti nemendaskrá skólans að geta staðfest fyrirkomulagið.

Kærandi telur að Viðskiptafræðideild hafi borið að tilkynna nemendum sem ekki voru skráðir í námið um breytingar á námsfyrirkomulagi. Viðskiptafræðideild hafi mátt vera það ljóst að skráningarstaða nemenda sem frestir náðu til gat verið með ýmsu móti og því ósanngjarnt að senda eingöngu upplýsingar um breytingarnar til þeirra nemenda sem voru skráðir í námið á tilteknum tímapunkti. Kærandi vekur sérstaka athygli á því að þegar ákvörðun meistaranámsnefndar var tekin 3. apríl 2018 hafi verið liðin allt að átta ár frá því að nemendur sem ákvörðunin gat náð til höfðu verið virkir í námi. Jafnframt tekur kærandi fram að einungis hefði þurft að kanna hug þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrði um frestun, m.a. að ekki fleiri en tveimur námskeiðum væri ólokið og að um eldri námskeið gilti 10 ára afskriftarregla.

Þá vísar kærandi til þess að hann hafi gert sér sérstaka ferð í nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs 20. ágúst 2019 þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar, frá starfsmanni með sérþekkingu á meistaranámi í fjármálum, að ekkert stæði í vegi fyrir útskrift hans úr 90 ETC meistaranámi nema ritgerðin. Aldrei hafi verið minnst á að sett hafi verið tímamörk um lok námsins eða vísað til leiðbeininga á heimasíðu námsins um námslokin. Þá hafi aðrir meinbugir á útskrift, svo sem skráningarstaða, tímamörk náms og/eða ófullnægjandi skráning, ekki borist í tal. Kærandi bendir á að hefði hann fengið fullnægjandi upplýsingar við þetta tilefni hefði hann haft tök á að bregðast við og útskrifast úr 90 ETC meistaranámi innan tímamarkanna.

Þá lýsir kærandi sig ósammála þeirri fullyrðingu HÍ að framangreindar villandi upplýsingar breyti ekki niðurstöðu málsins. Þvert á móti sé ljóst að með því að óska eftir fundinum hafi kærandi sinnt þeim skyldum sínum að kanna hvort fyrirkomulagi námsins eða námsmati hafi verið breytt og það sé því lykilatriði að nemendaþjónustan hafi ekki veitt honum réttar upplýsingar. Kærandi bendir á að hefði hann fengið réttar upplýsingar væri staða hans önnur.

Þá bendir kærandi á að sú staðreynd að hann hafi ekki gert neinn reka að því að skrá sig í námið hljóti að renna stoðum undir að í samtali hans við starfsmann nemendaþjónustunnar hafi ekki komið fram að fresti hans til þess að skila ritgerð myndi senn ljúka. Erfitt sé að sjá á hvaða tímapunkti kærandi hefði átt að afla sér upplýsinga á nýjan leik um hvort fyrirkomulagi námsins hefði verið breytt eins og HÍ vilji meina að hann hefði átt að gera.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Um málsástæður HÍ í málinu vísast til málsatvikalýsingar hér að framan, þ.e. þess rökstuðnings sem fram kemur í bréfi meistaranámsdeildar 13. apríl 2021 og í tölvupósti deildarforseta 19. s.m.

Í viðbótarathugasemdum skólans, dags. 25. janúar 2022, kemur fram að kærandi geri athugasemd við fullyrðingu kærunefndar í málefnum nemenda um að hann hefði ekki getað skilað ritgerð á skólaárinu 2020-2021. Kærandi haldi því fram að þessi fullyrðing sé röng og að mörg fordæmi séu fyrir því að nemendum sem ekki séu skráðir á tiltekið skólaár sé heimilað að skrá sig í nám til þess eins að skila ritgerð. Í viðbótarathugasemdum HÍ kemur fram að engin ástæða sé til að draga í efa að þetta sé rétt hjá kæranda, en þetta sé aukaatriði og hafi ekki þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins. Um annað sem fram kemur í viðbótarathugasemdum kæranda vísar HÍ til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í áliti kærunefndar í málefnum nemenda

V.

Niðurstaða

Krafa um að felld verði úr gildi ákvörðun háskólaráðs nr. 2021/2

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun HÍ að hafna beiðni kæranda um að skila lokaritgerð og ljúka þar með 90 eininga meistaranámi í fjármálum fyrirtækja við Viðskiptafræðideild HÍ. Fyrir liggur að námið var síðast í boði sem 90 eininga nám skólaárið 2017-2018. Nú er um að ræða 120 eininga meistaranám þar sem öll námskeið eru 7,5 einingar í stað 6 eininga áður og námskeiðum hefur fjölgað úr tíu í tólf. Kærandi fékk inngöngu í framangreint 90 eininga meistaranám vorið 2014. Svo sem fram kemur í 5. mgr. 95. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 skulu stúdentar í námi til MS/MA-prófs við Viðskiptafræðideild hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Umrædd regla var í gildi þegar kærandi hóf umrætt nám og verður að ganga út frá því að hún hafi verið, eða mátt vera, honum kunn.

Samkvæmt framangreindum reglum bar kæranda að ljúka náminu eigi síðar en 2017. Óumdeilt er að kærandi hefur ekki verið skráður nemandi við HÍ síðan hann lauk öllum námskeiðum vorið 2015, en þá átti hann eingöngu eftir að skrifa ritgerð til að ljúka náminu. Kærandi hefur ekki verið skráður til náms í HÍ síðan og þar af leiðandi ekki verið „stúdent“ í skilningi 1. mgr. 48. gr. reglna nr. 569/2009 frá þeim tíma, en samkvæmt ákvæðinu teljast þeir einir stúdentar við HÍ sem skrásettir hafi verið til náms og greitt skrásetningargjald. Þá liggur fyrir að kærandi skráði sig heldur ekki í námshlé svo sem heimilt er skv. 5. mgr. 48. gr. reglnanna.

Óumdeilt er að kærandi hafði samband við leiðbeinanda sinn varðandi ritgerðarskrif í desember 2016, en svo ekki aftur fyrr en í mars 2021.

Þar sem kærandi var ekki skráður til náms er ljóst að hann hefði ekki getað skilað lokaritgerð á skólaárinu 2020-2021, svo sem hann krafðist, heldur hefði hann þurft að innrita sig að nýju til náms, greiða skráningargjald og hefja nám skólaárið 2021-2022. Þegar kærandi beindi erindi sínu til Viðskiptafræðideildar 30. mars 2021 og óskaði eftir heimild til þess að skrá sig í deildina til þess að eiga kost á að skila lokaritgerð í meistaranámi í fjármálum fyrirtækja samkvæmt 90 eininga námsleið var frestur til að ljúka því námi þegar liðinn. Hefur þannig ekki þýðingu þótt fordæmi séu fyrir því að nemendum sé heimilað að skrá sig á tiltekið skólaár til þess eins að skila ritgerð.

Með vísan til alls framangreinds er kröfum kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun háskólaráðs nr. 2021/2 hafnað.

Um málsmeðferð HÍ

Kærandi óskar einnig eftir mati nefndarinnar á því hvort framkvæmd breytinga á námsleið og meðferð viðskiptafræðideildar á beiðni kæranda hafi samrýmist reglum, skráðum eða óskráðum, og góðri stjórnsýslu.

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á reglum um meistaranám í fjármálum fyrirtækja 16. júní 2017. Ekkert liggur fyrir um að breytingarnar hafi byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum. Engu að síður er ljóst að þær gátu haft óbein afturvirk og íþyngjandi áhrif fyrir nemendur sem höfðu hafið nám samkvæmt eldra fyrirkomulagi.

Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um að breyta stjórnsýsluframkvæmd kann þeim að vera skylt á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar, skráðra og óskráðra, sem styðjast við sjónarmið um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og stöðugleika í stjórnsýslu að gæta að tilteknum málsmeðferðar- og formsatriðum. Í slíkum tilvikum þurfa stjórnvöld að gæta sérstaklega að hagsmunum þeirra sem breytingin hefur íþyngjandi áhrif á. Séu breytingarnar verulega íþyngjandi gagnvart borgurunum með tilliti til fyrri stjórnsýsluframkvæmdar verða stjórnvöld þannig almennt að kynna breytinguna fyrirfram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir borgarar sem málið snertir hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. Er í þessu sambandi horft til þess að borgararnir hafa réttmætar væntingar um að njóta réttinda í samræmi við þekkta og gildandi stjórnsýsluframkvæmd. Sjá hér t.d. umfjöllun í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 151/2010 og áliti umboðsmanns Alþingis í máli 6109/2010.

Það er mat áfrýjunarnefndar að þeir frestir sem Viðskiptafræðideild veitti nemendum sem höfðu hafið nám sitt samkvæmt eldra fyrirkomulagi hafi verið ríflegir. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að breytingarnar og frestir til þess að ljúka námi samkvæmt eldra fyrirkomulagi hafi verið kynntir með fullnægjandi hætti.

Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda að HÍ hafi borið að hafa samband við alla þá sem á einhverjum tímapunkti höfðu verið skráðir í nám í fjármálum fyrirtækja og kynna þeim framangreindar breytingar á náminu sérstaklega. Líkt og áður er rakið hafði kærandi ekki verið skráður til náms í tæp sex ár og hafði ekki óskað eftir námshléi í samræmi við 5. mgr. 48. gr. reglna nr. 569/2009, en hefði svo verið hefði hann fengið sendar sömu upplýsingar og þeir nemendur sem skráðir voru í námið.

Þá má nefna að allar upplýsingar um breytingar á náminu hafa verið aðgengilegar á heimasíðu Viðskiptafræðideildar um árabil. Kærandi gat hæglega kynnt sér þær upplýsingar sem eru skýrar og ótvíræðar um þær breytingar sem orðið höfðu. Að mati áfrýjunarnefndarinnar má gera þá kröfu til nemenda á háskólastigi sem hafa verið jafn lengi frá námi og kærandi að þeir afli sér upplýsinga um hvort og þá hvaða breytingar hafi orðið á fyrirkomulagi náms eða námsmati. Þá geta nemendur sem svo er ástatt um ekki haft réttmætar væntingar til þess að nám sem þeir hafa einhverju sinni verið skráðir í haldist óbreytt til allrar framtíðar.

Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um kynningu breytinganna og þann fyrirvara sem nemendur höfðu til þess að ljúka námi samkvæmt eldra fyrirkomulagi telur áfrýjunarnefndin að engir annmarkar hafi verið á breytingum á námsleiðinni.

Mál kæranda var rannsakað með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun var tekin og niðurstaða skólans var rökstudd með fullnægjandi hætti. Kærandi hefur notið andmælaréttar og kæruréttar og ekkert liggur fyrir annað en að gætt hafi verið að öðrum form- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins. Er það því niðurstaða nefndarinnar að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að meðferð Viðskiptafræðideildar á beiðni kæranda hafi verið í ósamræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins eða góða stjórnsýsluhætti.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Öllum kröfum kæranda, A, er hafnað.

 

 

Einar Hugi Bjarnason

 

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                  Eva Halldórsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum